ÞJÓNUSTA

Krónu- og brúarsmíði

Hrotugómur

Bithlíf

Íþróttahlíf

Tannréttingatæki

Heilgómur

Partur

Fóðrun

Viðgerð

KRÓNU- OG BRÚARSMÍÐI

Krónur og brýr eru tanngervi sem ýmist eru smíðuð á:

 • náttúrulegan tannstaut þar sem eigin tönn er fræst niður
 • tannplanta sem græddur er í tannbein

Efnisval fer eftir aðstæðum í munni viðskiptavinar og væntingum hans.

Mikilvægt er að hafa hafa jafnvægi á milli fagurfræðilegra, líffræðilegra og mekanískra þátta. Þannig er hægt að fá fallegt tanngervi sem skaðar ekki munnhol og hefur góðan styrkleika. Við viljum aðeins nota bestu efnin sem völ er á fyrir okkar viðskiptavini.

Efni:

Einfasa plasttanngervi (málmlaust):

 • Vita CAD-Temp (multicolor og monocolor)

Einfasa postulínstanngervi (málmlaust):

 • IPS e.max
 • Zirconia
 • Vita Enamic (postulín með plastögnum)

Tvífasa postulínstanngervi (málmlaust):

 • Zirconia kjarni með ábrenndu postulíni frá GC Initial (PFZ)
 • IPS e.max kjarni með ábrenndu postulíni frá GC Initial – LiSi

Postulínstanngervi með málmkjarna:

 • Málmkjarni með ábrenndu postulíni frá GC Initial (PFM).
  Málmupplýsingar: Nobil-Metal Aurocast 4:
  Au 2%, Pd 75%, Ag 10%, In 6%, Ga 6.6%, Ru <1%.
  Au & PGM 77.4%

Málmtanngervi:

 • Heilkróna eða brú úr málmi.
  Málmupplýsingar: Nobil-Metal Aurocast 4:
  Au 64%, Pt 3.4%, Ag 18.7%, Cu 12.5%, Zn 1.3%, Ir <1%.
  Au & PGM 67.5%

HROTUGÓMUR

Hrotugómarnir okkar, Silensor-sl, eru sérsmíðaðir upp í hvern og einn viðskiptavin. Notast er við nýjustu tækni frá þýska fyrirtækinu Erkodent®.

,,Klínískar rannsóknir hafa sýnt að framfærsla neðri kjálka með þessari aðferð, minnka hrotur um 80% og getur minnkað kæfisvefn um allt að 50%.”

Vegna þess hve gómurinn er nettur þá heftir hann ekki öndun í gegnum munn.

Sendu okkur póst til að nálgast Silensor-sl kynningarbæklinginn.

BITHLÍF

Bithlíf er notuð til að vernda tennur frá tanngnístri að nóttu til. Bithlífarnar eru sérsmíðaðar fyrir hvern og einn viðskiptavin. Tannlæknir sér um að meta hvaða gerð hlífar (3 gerðir) hentar í hverju tilfelli fyrir sig.

Við bjóðum upp á nokkrar gerðir:

Hörð bithlíf:

 • Soðin
 • Pressuð með lofttæmingu (frá Erkodent®)

Hörð bithlíf, með mjúku innra lagi:

 • Pressuð með lofttæmingu (frá Erkodent®)

Mjúk bithlíf:

 • Pressuð með lofttæmingu (frá Erkodent®)

ÍÞRÓTTAHLÍF

Sérsmíðuð íþróttahlíf sem fer yfir tennur í efri gómi. Íþróttahlífin frá okkur kallast Playsafe triple og er framleidd með nýjustu tækni frá þýska fyrirtækinu Erkodent®. Hlífin dregur nafn sitt af því að hún er þriggja laga.

Kostur Playsafe triple framyfir “boil and bite” hlífarnar er að Playsafe triple er sérsmíðuð upp í hvern viðskiptavin og er því stöðugri þannig viðkomandi getur einbeitt sér áhyggjulaus að íþróttinni, hún er þriggja laga sem gefur betri vörn ásamt því að vernda bitkanta neðri góms tanna einnig.

Nokkri litir eru í boði sem þarf að sérpanta.

Tannréttingatæki

Smíðum allar tegundir tækja til tannréttinga og eftirmeðferðar eftir að tæki hafa verið fjarlægð, s.s. stoðboga og ýmsar gerðir tannréttingaplatna.

Ýmsir litir og glimmer í boði. Einnig er möguleiki að festa netta límmiða inni í plötuna.

Allir málmíhlutir sem fara í tannréttingaplötur frá okkur eru nickelfríir.

HEILGÓMUR

Heilgómur er ætlaður fyrir einstaklinga sem eru algjörlega tannlausir. Hann er staðgengill glataðra náttúrulegra tanna í gómboga og aðliggjandi vefja sem endurskapa útlit einstaklings, tyggingafærni, tal og bithæð.

Tannsmíðastofa Reykjavíkur notar nýjustu tækni við gerð heilgóma með Ivobase Injector vél frá Ivoclar Vivadent. Með þessari aðferð er monomerinnihaldi gómefnis haldið í lágmarki. Efnið inniheldur einungis 1,3% monomer á meðan sambærileg efni innihalda 4,5%. Ekki skemmir fyrir að efnið býr yfir meiri styrk og teygjanleika þannig að líkur á að gómurinn brotni stórminnkar.

Heilgómar geta ýmist verið hefðbundnir eða með mekaníska festu í munni.

Hefðbundinn heilgómur (,,venjulegur” heilgómur, ásetugómur):
Helst fastur í munni með náttúrulegri viðloðun og sogi við slímhúð.

Heilgómur með mekaníska festu í munni (ýmis smellu- og/eða plantakerfi):
Með aldrinum þá rýrnar tannlaust tannbein og heilgómar missa þannig mikilvæga náttúrulega festu í munni, þá sérstaklega í neðri gómboga. Hægt er að endurheimta festu með því að láta græða 2 – 4 planta í munn. Á plantana er skrúfuð smella en hinn hluti hennar er festur inni í heilgóminn.

PARTUR

Partur er ætlaður fyrir einstaklinga sem eru að hluta til tannlausir. Parturinn fyllir upp bil þar sem tannvöntun er með gervitönn/-um úr plasti. Oftast eru settir krókar til að halda partinum á sínum stað í munni við tal og tyggingu. Mismunandi er hvort partur sé; til bráðabirgða eða varanlegur.

Plastpartur (bráðabirgða tanngervi):
Gervitennur úr plasti eru festar í bleikt gómaplast. Oftast eru krókar til þess að halda partinum á sínum stað í munni við tal og tyggingu.

Skinnupartur, sveigjanlegur (bráðabirgða tanngervi):
Hentar vel þar sem framtennur hafa tapast og fylla þarf upp í 1-3 tannbil. Parturinn er sveigjanlegur og hefur festu í munni í undirskurðum á tönnum og því er, í flestum tilfellum, hægt að fá partinn án króka ef aðstæður í munni leyfa það. 

Stálgrindarpartur (varanlegt tanngervi):
Gervitennur úr plasti eru festar, með bleiku gómaplasti, á stálgrind sem er ýmist úr CoCr blöndu eða lazerprentuð (Málmupplýsingar: Ethos PB1. Innihald: Co 62.9 %, Cr 24.6%, Mo 4.8%, W 5.6%, Si 1.1% og Fe <1%).

Stálgrindarpartur hefur festu í munni aðallega með krókum eða smellum (t.d. Era smellur).

FÓÐRUN

Með tímanum heldur tannlaus rimi áfram að rýrna. Það er ástæðan fyrir því að heilgómar passa verr og verða lausir í munni. Stálgrindarpartar haldast þó betur í munni þar sem þeir hafa festu sína aðallega með krókum. Hins vegar er algengt að matur pakkist í holrúm undir söðli stálgrindarpartsins sem stækkar eftir því sem tannlaus rimi verður rýrari.

Ef þetta er reyndin þá er kominn tími á að fóðra heilgóminn / partinn. Eftir fóðrun þá liggur tanngervið þétt við slímhúð munnsins og passar betur.

Þú þarft að panta tíma í fóðrun hjá tannlækninum þínum sem tekur mát og sendir svo til okkar í fóðrun. Mikilvægt er að tannlæknirinn bóki tíma hjá okkur en þá er hægt að afgreiða hana samdægurs, ef mátið er tekið fyrir kl. 10.

VIÐGERÐ

Sinnum öllum plastviðgerðum;

 • brotinn gómur, partur, gervitönn, krókur
 • sprunga í góm eða parti
 • laus gervitönn

Viðgerðartími fer eftir umfangi. Yfirleitt er hægt að fá skilað samdægurs, sé komið fyrir kl. 11 á daginn, eða eftir samkomulagi.